Hvernig eru jól á spítala?

Við sem sinnum sálgæslu, sjúkrahúsprestar- og djákni á Landspítala, fáum iðulega þær spurningar í tengslum við jól og aðventu hvort hægt sé að halda jól á spítala og hvernig slík jól séu. Eins deilir fólk vangaveltum sínum um það hvort jólin geti yfirhöfuð komið til þeirra sem dvelja á sjúkrahúsi um hátíðina.

Í daglegu starfi okkar og þjónustu á Landspítala sinnum við sálgæslu sem felur m.a. í sér samfylgd við sjúklinga og fjölskyldur á erfiðum stundum í lífi þess. Samfylgdin byggir á nærveru sem einkennist af virðingu, trúnaði og umhyggju fyrir hverri manneskju og aðstæðum hennar. Sálgæslan hefur margs konar birtingarform en mætir einstaklingnum þar sem hann er, í erfiðum tilfinningum, óvissu og merkingarleit. Lífsskoðanir þeirra sem þiggja þjónustu sálgæslunnar eru margbreytilegar og er því andlegur, tilvistarlegur og/eða trúarlegur stuðningur veittur á forsendum þeirra. Samtöl fara fram þar sem rætt er við sjúkling og/eða fjölskyldu hans um lengri eða skemmri tíma. Í þeim samtölum er einnig setið í þögninni og um leið fá djúpar og sárar tilfinningar ákveðinn farveg.

Þau eru mörg sem þiggja þennan stuðning þar sem oft er knýjandi þörf fyrir að sinna andlega þættinum þegar veikindi og áföll hafa komið inn í lífið. Tilvistarlegu vangavelturnar verða ágengar og vanmáttur í erfiðum aðstæðum gerir vart við sig þar sem fólk getur upplifað algjört hjálparleysi, kvíða og sorg. Þegar hér er komið nýtist fagþekking sjúkrahúspresta- og djákna, guðfræðin og menntun á sviði áfalla- og sorgarvinnu, handleiðslufræða og fjölskyldumeðferðar.

Á aðventu og jólum er jafnvel meira kallað eftir þjónustu sálgæslunnar en á öðrum tímum ársins. Ástæða þess er án efa sú að aðdragandi jólahátíðarinnar og jólin sjálf snerta við ákveðnum streng í hjörtum fólks. Það fer í huganum til baka til fyrri jóla og deilir minningum sínum sem geta verið góðar og innihaldsríkar en einnig erfiðar og sársaukafullar. Í flestum tilfellum er þó áhersla lögð á að jólin eru tími þar sem tengsl og samskipti eru ræktuð við þau sem standa fólki næst svo sem fjölskyldu, vini og vinkonur. Að dvelja um jól á spítala reynir mikið á. Hvernig er hægt að halda jól þegar óvissa er um sjúkdómsgang og jafnvel andlát yfirvofandi? Við þeirri spurningu er ekkert einhlítt svar. Aftur á móti höfum við margoft verið vitni að því hvernig jólin og það sem þau standa fyrir, ljósið, friðurinn og samkenndin koma til fólks við sjúkra- og dánarbeð ekki bara á jólum heldur á öllum tímum ársins. Þegar jólin eru síðan hringd inn á aðfangadagskvöld þá koma jólin einnig á spítalann þrátt fyrir erfiðar aðstæður og allt verður heilagt.

Um þessar mundir verða jólin hjá okkur öllum með öðru sniði en áður. En þetta sammannlega sem við tengjum við jólin hefur ekki breyst. Við getum sýnt og meðtekið vináttu, umhyggju, ljósið sem skín í myrkrinu og innri frið. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður þá koma jólin. Guð gefi þér og þínum gleðileg og huggunarrík jól og blessunarríkt komandi ár.

Höfundar eru Díana Ósk Óskarsdóttir, Eysteinn Orri Gunnarsson, Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, Gunnar Rúnar Matthíasson, Ingólfur Hartvigsson, Rósa Kristjánsdóttir, Sveinbjörg Katrín Pálsdóttir og Vigfús Bjarni Albertsson.
Tekið af visir.is

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Myndbrot frá sjúkrahúspresti

Drottinn fer sjálfur fyrir þér, hann verður með þér.
Hann mun hvorki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.
Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast (5. Mós. 31.8).

Það er óvissa um margt þessa dagana. Margt hefur breyst vegna kórónuveirufaraldurs sem nær um allan heim.

Í þessari hugvekju ætla ég að varpa fram myndum úr starfi mínu sem sjúkrahúsprestur við Landspítalann. Þessar myndir eru að vissu leiti steyptar saman úr mörgum minningarbrotum. Engin nöfn en minningar sem því miður allt of margir geta tengt við í dag. Allt sem sjúkrahúsprestur heyrir og sér er bundið trúnaði. 

Myndbrotin sem ég ætla að kalla fram eru tvö. 
Það fyrra er samtal við manneskju sem er með kórónuveiruna og því í einangrun:

Sjúklingur óskar eftir sálgæslu. Sjúkrahúsprestur bregst við. Byrjar á því að spritta vel hendur, fer í hlífðarföt, setur hettu á höfuðið, grímu fyrir munn og nef, hlífðargleraugu fyrir augun og klæðir sig að lokum í latexhanska. Lítur í spegil. Athugar hvort að allt sé rétt og ekkert gleymst. Lagar grímuna og athugar hvort að hún sé þétt. Játar vanmátt sinn og ótta. Biður um styrk. Drottinn minn og Guð minn. Fer inn í einangrunarherbergið. Sest hjá manneskju sem situr uppi í sjúkrabeði. Ein í herbergi. Bók og farsími á borði. Tekið er í hönd prests. Þögn um stund. Hósti. Þreyta. Þögnin rofin og talað um það sem á hjartanu hvílir. Hugur hjá ástvinum. Sterk von um bata. Prestur hlustar og veitir orðum og þeim huga sem að baki þeim er athygli. Hlífðarfötin eru í fyrstu heftandi. Móða á hlífðargleraugunum. Óþægindin gleymast þó fljótt. Kemur á óvart að þessi heftandi hlífðarföt trufla ekki samtalið. Prestur kveður að lokum, fer fram í milliherbergi og lokar á eftir sér. Fer úr hlífðarfötum og sótthreinsar sig vel og vandlega og fer fram á gang. Undirbýr sig fyrir næsta viðtal.

Svo er það seinna myndbrotið. Manneskja deyr á einni af sjúkradeildum Landspítalans. Ekki af kórónuveirunni. Eðlilegur dauðdagi en veiran er samt allt um kring og hefur mikil áhrif:
Það er miðnætti. Hópur fólks situr inn á sjúkrastofu við dánarbeð látins ástvinar. Sjúkrahúsprestur situr hjá þeim. Öll eru þau með grímu fyrir vitum sér og öll klæðast þau sloppi. Prestur kynnir sig og vottar samúð sína um leið og hann leggur aðra hönd sína við hjartarstað. Engin heilsar með handabandi. Aðstandendur þakka fyrir samúðarkveðjuna en segja ekkert meir. Orð vega þungt þegar ekki sjást svipbrigði. Tárin renna ekki niður kinnar ástvina heldur lita grímurnar dökkbláar. Presturinn heldur sig í tveggja metra fjarlægð. Látlaus kveðjustund við dánarbeð.

Þetta voru tvö stutt minningarbrott á tímum kórónuveirunnar úr starfi sjúkrahúsprests sem starfar meðal annars á coviddeildum Landspítalans við Fossvog. Kórónufaraldurinn er enn í fullum gangi og engin veit hvenær hann tekur enda. Eitt er þó víst að kórónuveiran mun gefa eftir að lokum.

Eins og alltaf þá er það þrennt sem varir í gegnum allar þrengingar, trú, von og kærleikur. Kærleikurinn er þeirra mestur.

Sr. Ingólfur Hartvigsson

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Fréttir af aðalfundi

Það eru sannarlega undarlegir tímar, tímar þar sem hið venjubundna færist til og óvissa ríkir. Vegna stöðunar, veldisvaxtar kórónuveirunnar þurfum við að fresta aðalfundi. Það verður ekki aðalfundur í október eins og vant er.
Við bíðum átekta og vonum að raunin verði önnur í nóvember.

Farið vel með ykkur kæru félagar, gætið að persónulegum smitvörnum og gefið ykkur stundir til að næra andann. Það er okkar hvatning að við sameinumst í morgunbæn hvers dags og biðjum fyrir lausn inn í ástandið og bata þeirra sem veikjast, biðjum fyrir heilbrigðisfólki sem er undir miklu álagi, fyrir aðstandendum og öðrum sem eru óttaslegin vegna Covid 19. 

Megi okkar algóði Guð vernda og blessa okkur öll.

Fyrir hönd stjórnar,
Díana Ósk

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Samtal um dánaraðstoð

Samtalið um dánaraðstoð er krefjandi og viðkvæmt en mikilvægt. Umræðuefnið snertir okkur öll. Hér er fyrrum formaður KFH, Dr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, sjúkrahúsprestur Þjóðkirkjunnar á líknardeild Landspítala og formaður hjá Lífinu, samtökum um líknarmeðferð í samtali við Lindu Blöndal í þættinum 21 hjá Hringbraut.

https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/21/liknarmedferd-er-ekki-danaradstod-og-sinfoniuhljomsveit-sudurlands-stofnud/

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Félagsfundi frestað

Vegna tilmæla frá Almannavörnum verður félagsfundi sem hafði verið settur þann 28. september, frestað.

Við hvetjum fólk til að hlúa að sér, sinna sóttvarnar leiðbeiningum og nýta símann eða rafrænar leiðir til að vera í samskiptum.

Biðjum án afláts, setjum fólkið okkar og þjóðina alla í Drottins hendur.

Drottinn blessi þig, og varðveiti þig.
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið!

Kveðja, stjórnin.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Félagsfundur

Kæru félagar Kristilegs félags heilbrigðisstétta, nú viljum við bjóða til félagsfundar mánudaginn 28. september 2020, kl. 17:00 í sal Kristniboðssambandsins við Háaleitisbraut 58-60, 108 Reykjavík.

Séra Ingólfur Hartvigsson mun leiða okkur í bæn og flytja erindi um mikilvægi þess að sinna og mæta andlegri- tilfinningalegri og trúarlegri þörf einstaklinga innan heilbrigðisstofnana.

Séra Pétur Þorsteinsson mætir með gítarinn.

Farið verður eftir Covid-19 tilmælum sóttvarnarteymis og landlæknis.
Boðið verður upp á kaffi.

Verið öll innilega velkomin sem og öll þau sem hafa áhuga á starfi félagsins.
Kveðja stjórnin.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Gleðilega páska

Það er góður dagur í dag. Sólin skín, vetur undirbýr sig að kveðja og allt í kringum okkur má sjá ummerki þess að lífið fari að kvikna að nýju. Nú er sigurhátíð – stærsta hátíð okkar sem erum kristin. Við fögnum lífinu. Föstudagurinn langi er liðinn, Drottinn er búinn að sigra dauðann – Jesús er upprisinn.

Það tekur okkur mörg góða stund að meðtaka skilaboðin og átta okkur á þessum mikla sigri – fréttunum um hið eilífa líf.
Gefum okkur stund og meðtökum það sem Drottinn hefur fyrir okkur.
Þökkum og fögnum.

Sr. Díana Ósk Óskarsdóttir

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Kæru félagar!

Nú eru við öll að takast á við tíma sem við þekkjum ekki og við erum tilneydd til þess að fara útfyrir þægindarammann okkar. Veiran sjálf er ákveðin ógn gagnvart þeim sem fást við undirliggjandi sjúkdóma, þau sem eru komin á aldur og þau sem eru að fást við kvíða.

Margir Íslendingar eru í sóttkví, einhver í einangrun, sum eru veik og framundan er meira álag á heilbrigðisstarfsfólk. Það er eðlilegt að glíma við óöryggi miðað við þá óvissu sem nú ríkir.

Á sama tíma og við hvetjum fólk til þess að sýna varfærni, fara að fyrirmælum um hreinlæti, samkomubann og fjarlægðarbil milli einstaklinga viljum við hvetja ykkur til að standa vörð í bæninni. Leggjumst öll á eitt, biðjum án afláts!
Biðjum fyrir þeim þjóðum sem eru að fást við erfiðar aðstæður vegna veirunnar, biðjum fyrir almannavarnarkerfinu okkar, biðjum fyrir heilbrigðiskerfinu, öllu heilbrigðisstarfsfólki, biðjum fyrir þeim sem eru sjúkir, aðstandendum þeirra, biðjum fyrir þeim sem eru í einangrun, þeim sem eru í sóttkví og þeim sem eru óttaslegin eða kvíðin. Biðjum fyrir hvert öðru.

Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
Filippíbréfið 4.

Þau sem leita Drottins, fara einskins góðs á mis.
Sálm. 34

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Félagsfundur

Kæru félagar, þann 17. Febrúar 2020 kl. 17:30 ætlum við að koma saman í sal Kristniboðssambandsins.
Sr. Fritz Már Jörgensson mun flytja erindi um kyrrðarbæn og leiða okkur í bæn.
Sr. Pétur Þorsteinsson mun mæta með gítarinn.
Við munum enda stundina með súpusamfélagi.
Verið öll innilega velkomin.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Jóla og áramótakveðja

Stjórn Kristilegs félags heilbrigðisstétta sendir öllum sínum félagsmönnum og konum hlýja kveðju um hátíðarnar. Með innilegri þökk fyrir árið sem er að líða.

GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR

Megi okkar eilífi Guð umfaðma hvert og eitt ykkar, blessa ykkur og leiða.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd