Gleðilega páska

Hann er upprisinn!

Kristur lifir!

Nú er sigurhátíð, stærsta hátíð okkar sem erum kristin. Föstudagurinn langi, dánarstund Jesú liðinn, hann búinn að sigra dauðann og er upprisinn!

Það er eitt að sjá eitthvað, annað er að taka eftir því sem við sjáum og enn annað er að meðtaka það og tengja við það.

Við getum séð borð án þess að gefa því gaum, á einum tíma gætum við tekið betur eftir og séð á því óhreinan disk og hnífapör á öðrum tíma gætum við tekið betur eftir og séð hvernig hnífapörin hafa verið sett með ákveðnum hætti á diskinn og við meðtökum hvað það þýðir.

Jóhannes kom að gröf Jesú og sá línblæjurnar einar liggjandi, Pétur tók eftir því að línblæjurnar láu þarna en sveitadúkurinn sem hafði verið vafinn um höfuð Jesú lá ekki með þeim heldur var samanvafinn á öðrum stað.

Þau sem hafa rýnt í þennan texta hafa spurt hvort það hafi haft ákveðna merkingu að vefja höfuðklútinn svona saman, líkt og þegar við gefum til kynna að við séum hætt að borða með því að leggja hnífapörin frá okkur með ákveðnum hætti á diskinn. Mér finnst það áhugaverð spurning því það er ekki fyrr en  Jóhannes kemur inn í gröfina að hann sér samanvafinn höfuðklútinn og meðtekur tíðindin.

Þarna meðtók Jóhannes fagnaðarerindið og sá að áætlun Guðs hafði náð fram að ganga.

Á einu augabragði fóru lærisveinarnir frá mikilli depurð, efa, ótta og örvæntingu yfir í von, sigur og gleði. Jesús hafði verið deyddur á Krossi og var nú upprisinn!

Vörpum áhyggjum okkar til Drottins meðtökum bænasvarið og treystum því að áætlun Guðs mun ná fram að ganga okkur til góðs og honum til dýrðar. Njótum þess að fagna saman því sem felst í upprisunni, að Jesús sigraði dauðann og gaf okkur tækifæri til eilífs lífs með sér.

Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður KFH.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Gleðilegt nýtt ár!

Kæri félagi KFH nú er árið á enda.

Þetta hefur verið einstakt ár þar sem við höfum ekki náð að koma saman eins og áður. Félagsfundir og súpusamfélagið hefur verið í hvíld og stjórnarfundir hafa verið haldnir á netinu. Aðalfundur félagsins var settur á bið þar til við getum komið saman og látum við vita um leið og sóttvarnarteymið gefur grænt ljós á samkomur.

Nú sem fyrr hefur verið mikil þörf á bænastundum. Enda hefur bænalíf okkar ekki riðlast eða verið stoppað vegna kórónuveirunnar. Við höfum lagt kapp á að minna á sameiginlegar bænastundir þar sem við höfum beðið sérstaklega fyrir heilbrigðiskerfinu, öllu því fólki sem þarf á þjónustu þess að halda og öllu heilbrigðisstarfsfólki. Við höfum einnig beðið fyrir félaginu okkar og þeim farvegi sem Guð hefur fyrir það.

Á árinu náðist að klára verkefnið sem við unnum að með Biblíufélaginu, að gerð bænadisksins (minnislykilsins). Við erum þakklát fyrir það ferli og þann ávöxt og hlökkum til að sjá bænastundirnar komast í loftið.

Við höldum áfram að biðja, biðjum án afláts og treystum okkar himneska föður fyrir landinu okkar og öllu okkar fólki og þökkum fyrir allar góðar gjafir og allt það góða sem hefur áunnist.

Um leið og við kveðjum árið þá þökkum við fyrir það sem liðið er og tökum fagnandi á móti nýju ári og nýjum áskorunum og óskum ykkur farsældar á árinu 2021.

Legg allt þitt í hendur Guðs sem mun vel fyrir sjá!

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
Jóh. 14.27
Hann sagði: Ég elska þig, Drottinn, styrkur minn. Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín.
Sálmarnir 18.2-3

F.h. stjórnar,
Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Viðtalið: Birtu brugðið yfir skugga

Öllum finnst sjálfsagt og eðlilegt að vera með sínum nánustu um jólahátíðina. Jólin enda ekki aðeins hátíð ljóss og friðar, trúar og kærleika, heldur og hátíð fjölskyldunnar. Sá tími þegar fólk vill vera umvafið sínum nánustu.

En sum hver þurfa að vera fjarri sínum nánustu á þessari hátíð. Og jafnvel enn fjær en venjulega nú um stundir vegna kórónuveirunnar.

Þetta á meðal annars við um þau sem eru á sjúkrahúsum.

Dr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir er sjúkrahúsprestur þjóðkirkjunnar og hefur lengi starfað á þeim vettvangi. Hún segir helgihaldið á Landspítalanum verða með öðrum hætti á þessum jólum en hinum fyrri.„Þetta er í fyrsta skipti í rúma tvo áratugi þar sem ég verð ekki að þjóna við helgihald á líknardeild í Kópavogi á aðfangadag,“ segir dr. Guðlaug Helga. „Í stað þess verður jólaguðsþjónusta sýnd í sjónvarpi Landspítalans á aðfangadag, jóladag og annan jóladag. Einnig verður hægt að nálgast upptöku á heimasíðu og Facebook-síðu spítalans.“

Það þarf varla að taka það fram að aðventan hefur einnig verið með öðrum blæ á spítalanum en áður og prestar og djákni hafa þurft að aðlaga sálgæsluleiðir sínar að þessum aðstæðum.Velviljað listafólk
„Við eigum svo margt tónlistarfólk sem hefur komið á spítalann á aðventu og jólum og glatt sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk með tónlist sinni,“ segir dr. Guðlaug Helga. Sú dýrmæta og þakkarverða þjónusta var fjarri að þessu sinni vegna sóttvarnaraðgerða. En hún segir að þeim skilaboðum hafi verið komið til þeirra að þau mættu svo sannarlega leita til tónlistarfólksins á næstu aðventu og jólum. „Við stefnum að sjálfsögðu að því,“ segir dr. Guðlaug Helga full tilhlökkunar enda eru öll búin að fá nóg af kórónuveirutrufluninni þó þolinmóð séu.

„Við sem störfum á vettvangi sálgæslu presta og djákna finnum glöggt hversu aðventan og jólin eiga sterkan sess í hugum fólks,“ segir dr. Guðlaug Helga. „Það er mikið leitað til okkar á þessum tíma og jafnvel meira en aðra daga ársins.“

Er einhver skýring á því?

„Vafalaust er hún sú að jólin og aðventan vekja með sér ákveðnar tilfinningar og hughrif,“ svarar dr. Guðlaug Helga. „Þetta er tími þar sem tengsl og samskipti við þau sem standa fólki næst eru svo dýrmæt og það er erfitt að vera að glíma við veikindi og áföll á þessum tíma.“

Hún segir að fólk leiði oft hugann til fyrri jóla sem það hefur upplifað og deili minningum sem geta bæði verið góðar og innihaldsríkar en einnig erfiðar og sársaukafullar. „Við sjúkrahúsprestar- og djákni á spítalanum skrifuðum einmitt stutta grein sem birtist á visir.is þar sem við fjölluðum um jólin á spítala,“ segir dr. Guðlaug Helga. 

En í hverju felst sálgæsla sjúkrahúspresta- og djákna?

„Það er fyrst og fremst samfylgd með fólki á erfiðum tímum í lífi þess,“ svarar dr. Guðlaug Helga. „Samfylgdin byggir á nærveru sem einkennist af virðingu, trúnaði og umhyggju fyrir hverri manneskju og aðstæðum hennar.“

Hún segir að samtölin geti verið margs konar og snúist um mikla tilvistarkreppu fólks og markmiðsleit í lífinu. Stundum sé þó bara setið í þögninni og um leið fái djúpar og sárar tilfinningar ákveðinn farveg. Þjónustan sé alltaf veitt á forsendum þeirra sem hana þiggja. „Í því felst samfylgdin meðal annars,“ segir dr. Guðlaug Helga.

Þá segir hún að þau sinni fjölskyldum í aðdraganda andláts eða við andlát og veiti sálgæslu með ýmsum hætti og hafi um hönd sérstaka kveðjustund við dánarbeð. „Okkar faglega þekking er á sviði guðfræði og menntunar í áfalla- og sorgarvinnu, handleiðslufræðum og fjölskyldumeðferð,“ segir dr. Guðlaug Helga.

Flest breyttist með veirunni

Sjúkrahúsprestar- og djákni urðu eins og annað starfsfólk að beygja sig fyrir breyttum aðstæðum á sjúkrahúsinu. Það hafði töluverð áhrif á þjónustuna og brá öðrum svip yfir hana enda þótt hún breyttist ekki í eðli sínu.

„Við erum klædd í spítalaföt frá toppi til táar,“ segir dr. Guðlaug Helga, „setjum upp maska eins og annað starfsfólk og jafnvel hanska.“ Þau þeirra sem hafi sinnt kóvid-sjúklingum hafi síðan þurft að fara í sérstakan klæðnað.Ekki ókunnug sjúkrahúsum
„Jól á spítala hafa verið stór hluti af lífi mínu,“ segir dr. Guðlaug Helga. „Á bernsku- og unglingsárum ólst ég upp við það að jólin hjá mér og minni fjölskyldu hófust á spítala. Ég man eftir mér frá blautu barnsbeini þar sem ég fylgdi föður mínum í jólahelgihald en hann starfaði sem læknir lengstum á Grensásdeild en einnig í Svíþjóð. Það eru dýrmætar minningar og ég þrátt fyrir í fyrstu ungan aldur fann vel að jólin koma einnig til þeirra sem dveljast á sjúkrastofnunum. Síðustu rúm 20 ár hef ég síðan notið þeirra forréttinda að fá að byrja jólin á líknardeildinni. Í ár mun ég fara á deildina og heilsa upp á sjúklingana sem þar dvelja um jólin og aðstandendur þeirra.“
En hvað með eftirfylgd með sjúklingum og aðstandendum?

„Hún hefur að miklu leyti farið fram í gegnum símaviðtöl,“ svarar dr. Guðlaug Helga.

Hún segir að þrátt fyrir allar sóttvarnaraðgerðir og þær skorður sem þær hafi sett þeim í sambandi við að hitta fólk með sama hætti og áður þá geti þau sinnt samfylgdinni og staðið við hlið annarrar manneskju á viðkvæmum og erfiðum tíma í lífi hennar.

Það er gjarnan sagt svo að jólahátíðin komi hvernig svo sem stendur á í lífi fólks. Hátíðin gengur í garð þegar klukkur hringja inn jólin á aðfangadagskvöld. Sá klukknahljómur berst um allt. Líka inn á spítalana og þá eru jólin komin. Hvernig svo sem stendur þar á í lífi fólks: sjúklinga sem starfsfólks.

„Boðskapur jólanna og það sem hann stendur fyrir kemur til fólks hvort sem það er statt við sjúkrarúm eða dánarbeð,“ segir dr. Guðlaug Helga, „já og inn í allar aðstæður og þá ekki bara á jólum heldur einnig á öðrum tímum ársins.“
Boðskapurinn sem er einstakur:

„Ljósið, friðurinn og samkenndin eru allt gildi sem tala sterkt inn í mannlegar aðstæður og ekki síst þegar verið er að takast á við erfið veikindi og áföll,“ segir dr. Guðlaug Helga. „En það erfiðasta er líklega það að geta ekki verið í sínum eigin aðstæðum, á sínu eigin heimili.“

Glíma við veikindi og öryggisleysið taki á alla sem og að horfast í augu við takmarkaðan tíma með fjölskyldu og nánum vinum.

En þrátt fyrir allt er spítalinn eins og hver annar vinnustaður með starfsfólki úr ólíkum áttum. En hann er líka sérstakur með sínum hætti sem viðkomustaður fólks á leið aftur út í lífið eða fólks sem á ekki afturkvæmt. Þetta tvennt setur mark sitt á staðinn og gerir hann öðruvísi en aðra vinnustaði. Og starfsfólkið.
„Það er einstakt að vinna á jólum á spítalanum þegar hann er í hátíðarbúningi eins og hægt er ef svo má segja,“ segir dr. Guðlaug Helga. Þá sé góður hátíðarmatur borinn fram og starfsfólk spítalans leggi sig í framkróka með að skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft.

Dr. Guðlaug Helga segir að stundirnar sem hún hafi átt með sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki bæði á aðventu og á aðfangadag í kapellu líknardeildar séu einstakar. Þær skipti fólk gífurlega miklu máli. „Þau sem geta taka undir jólasálmana okkar og sérstaklega Heims um ból,“  segir hún og bætir við að þá verði helgi jólanna með einhverjum hætti svo áþreifanleg og öll viðstödd sameinist um það sem skipti máli.

hsh
Viðtalið er tekið af vef kirkjunnar: kirkjan.is

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Gleðileg jól



Kæri félagi,við sendum okkar bestu óskir um Gleðileg jól til þín og þinna.
Megi Drottinn blessa ykkur með friði, kærleika og sátt yfir jólin.

Vers vikunnar:
„Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ (Lúk 2.10b.11)

Bæn dagsins:
Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, og upphaf gleðinnar. Með fæðingu Jesúbarnsins sendir þú bjartan geisla inn í myrkur jarðar. Gef að þetta ljós lýsi einnig hjá okkur. Lát það geisla í öllu sem við gerum, svo að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu. Amen.  

Jólakveðja, f.h. stjórnar,
Díana Ósk Óskarsdóttir



Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Hvernig eru jól á spítala?

Við sem sinnum sálgæslu, sjúkrahúsprestar- og djákni á Landspítala, fáum iðulega þær spurningar í tengslum við jól og aðventu hvort hægt sé að halda jól á spítala og hvernig slík jól séu. Eins deilir fólk vangaveltum sínum um það hvort jólin geti yfirhöfuð komið til þeirra sem dvelja á sjúkrahúsi um hátíðina.

Í daglegu starfi okkar og þjónustu á Landspítala sinnum við sálgæslu sem felur m.a. í sér samfylgd við sjúklinga og fjölskyldur á erfiðum stundum í lífi þess. Samfylgdin byggir á nærveru sem einkennist af virðingu, trúnaði og umhyggju fyrir hverri manneskju og aðstæðum hennar. Sálgæslan hefur margs konar birtingarform en mætir einstaklingnum þar sem hann er, í erfiðum tilfinningum, óvissu og merkingarleit. Lífsskoðanir þeirra sem þiggja þjónustu sálgæslunnar eru margbreytilegar og er því andlegur, tilvistarlegur og/eða trúarlegur stuðningur veittur á forsendum þeirra. Samtöl fara fram þar sem rætt er við sjúkling og/eða fjölskyldu hans um lengri eða skemmri tíma. Í þeim samtölum er einnig setið í þögninni og um leið fá djúpar og sárar tilfinningar ákveðinn farveg.

Þau eru mörg sem þiggja þennan stuðning þar sem oft er knýjandi þörf fyrir að sinna andlega þættinum þegar veikindi og áföll hafa komið inn í lífið. Tilvistarlegu vangavelturnar verða ágengar og vanmáttur í erfiðum aðstæðum gerir vart við sig þar sem fólk getur upplifað algjört hjálparleysi, kvíða og sorg. Þegar hér er komið nýtist fagþekking sjúkrahúspresta- og djákna, guðfræðin og menntun á sviði áfalla- og sorgarvinnu, handleiðslufræða og fjölskyldumeðferðar.

Á aðventu og jólum er jafnvel meira kallað eftir þjónustu sálgæslunnar en á öðrum tímum ársins. Ástæða þess er án efa sú að aðdragandi jólahátíðarinnar og jólin sjálf snerta við ákveðnum streng í hjörtum fólks. Það fer í huganum til baka til fyrri jóla og deilir minningum sínum sem geta verið góðar og innihaldsríkar en einnig erfiðar og sársaukafullar. Í flestum tilfellum er þó áhersla lögð á að jólin eru tími þar sem tengsl og samskipti eru ræktuð við þau sem standa fólki næst svo sem fjölskyldu, vini og vinkonur. Að dvelja um jól á spítala reynir mikið á. Hvernig er hægt að halda jól þegar óvissa er um sjúkdómsgang og jafnvel andlát yfirvofandi? Við þeirri spurningu er ekkert einhlítt svar. Aftur á móti höfum við margoft verið vitni að því hvernig jólin og það sem þau standa fyrir, ljósið, friðurinn og samkenndin koma til fólks við sjúkra- og dánarbeð ekki bara á jólum heldur á öllum tímum ársins. Þegar jólin eru síðan hringd inn á aðfangadagskvöld þá koma jólin einnig á spítalann þrátt fyrir erfiðar aðstæður og allt verður heilagt.

Um þessar mundir verða jólin hjá okkur öllum með öðru sniði en áður. En þetta sammannlega sem við tengjum við jólin hefur ekki breyst. Við getum sýnt og meðtekið vináttu, umhyggju, ljósið sem skín í myrkrinu og innri frið. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður þá koma jólin. Guð gefi þér og þínum gleðileg og huggunarrík jól og blessunarríkt komandi ár.

Höfundar eru Díana Ósk Óskarsdóttir, Eysteinn Orri Gunnarsson, Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, Gunnar Rúnar Matthíasson, Ingólfur Hartvigsson, Rósa Kristjánsdóttir, Sveinbjörg Katrín Pálsdóttir og Vigfús Bjarni Albertsson.
Tekið af visir.is

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Myndbrot frá sjúkrahúspresti

Drottinn fer sjálfur fyrir þér, hann verður með þér.
Hann mun hvorki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.
Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast (5. Mós. 31.8).

Það er óvissa um margt þessa dagana. Margt hefur breyst vegna kórónuveirufaraldurs sem nær um allan heim.

Í þessari hugvekju ætla ég að varpa fram myndum úr starfi mínu sem sjúkrahúsprestur við Landspítalann. Þessar myndir eru að vissu leiti steyptar saman úr mörgum minningarbrotum. Engin nöfn en minningar sem því miður allt of margir geta tengt við í dag. Allt sem sjúkrahúsprestur heyrir og sér er bundið trúnaði. 

Myndbrotin sem ég ætla að kalla fram eru tvö. 
Það fyrra er samtal við manneskju sem er með kórónuveiruna og því í einangrun:

Sjúklingur óskar eftir sálgæslu. Sjúkrahúsprestur bregst við. Byrjar á því að spritta vel hendur, fer í hlífðarföt, setur hettu á höfuðið, grímu fyrir munn og nef, hlífðargleraugu fyrir augun og klæðir sig að lokum í latexhanska. Lítur í spegil. Athugar hvort að allt sé rétt og ekkert gleymst. Lagar grímuna og athugar hvort að hún sé þétt. Játar vanmátt sinn og ótta. Biður um styrk. Drottinn minn og Guð minn. Fer inn í einangrunarherbergið. Sest hjá manneskju sem situr uppi í sjúkrabeði. Ein í herbergi. Bók og farsími á borði. Tekið er í hönd prests. Þögn um stund. Hósti. Þreyta. Þögnin rofin og talað um það sem á hjartanu hvílir. Hugur hjá ástvinum. Sterk von um bata. Prestur hlustar og veitir orðum og þeim huga sem að baki þeim er athygli. Hlífðarfötin eru í fyrstu heftandi. Móða á hlífðargleraugunum. Óþægindin gleymast þó fljótt. Kemur á óvart að þessi heftandi hlífðarföt trufla ekki samtalið. Prestur kveður að lokum, fer fram í milliherbergi og lokar á eftir sér. Fer úr hlífðarfötum og sótthreinsar sig vel og vandlega og fer fram á gang. Undirbýr sig fyrir næsta viðtal.

Svo er það seinna myndbrotið. Manneskja deyr á einni af sjúkradeildum Landspítalans. Ekki af kórónuveirunni. Eðlilegur dauðdagi en veiran er samt allt um kring og hefur mikil áhrif:
Það er miðnætti. Hópur fólks situr inn á sjúkrastofu við dánarbeð látins ástvinar. Sjúkrahúsprestur situr hjá þeim. Öll eru þau með grímu fyrir vitum sér og öll klæðast þau sloppi. Prestur kynnir sig og vottar samúð sína um leið og hann leggur aðra hönd sína við hjartarstað. Engin heilsar með handabandi. Aðstandendur þakka fyrir samúðarkveðjuna en segja ekkert meir. Orð vega þungt þegar ekki sjást svipbrigði. Tárin renna ekki niður kinnar ástvina heldur lita grímurnar dökkbláar. Presturinn heldur sig í tveggja metra fjarlægð. Látlaus kveðjustund við dánarbeð.

Þetta voru tvö stutt minningarbrott á tímum kórónuveirunnar úr starfi sjúkrahúsprests sem starfar meðal annars á coviddeildum Landspítalans við Fossvog. Kórónufaraldurinn er enn í fullum gangi og engin veit hvenær hann tekur enda. Eitt er þó víst að kórónuveiran mun gefa eftir að lokum.

Eins og alltaf þá er það þrennt sem varir í gegnum allar þrengingar, trú, von og kærleikur. Kærleikurinn er þeirra mestur.

Sr. Ingólfur Hartvigsson

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Fréttir af aðalfundi

Það eru sannarlega undarlegir tímar, tímar þar sem hið venjubundna færist til og óvissa ríkir. Vegna stöðunar, veldisvaxtar kórónuveirunnar þurfum við að fresta aðalfundi. Það verður ekki aðalfundur í október eins og vant er.
Við bíðum átekta og vonum að raunin verði önnur í nóvember.

Farið vel með ykkur kæru félagar, gætið að persónulegum smitvörnum og gefið ykkur stundir til að næra andann. Það er okkar hvatning að við sameinumst í morgunbæn hvers dags og biðjum fyrir lausn inn í ástandið og bata þeirra sem veikjast, biðjum fyrir heilbrigðisfólki sem er undir miklu álagi, fyrir aðstandendum og öðrum sem eru óttaslegin vegna Covid 19. 

Megi okkar algóði Guð vernda og blessa okkur öll.

Fyrir hönd stjórnar,
Díana Ósk

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Samtal um dánaraðstoð

Samtalið um dánaraðstoð er krefjandi og viðkvæmt en mikilvægt. Umræðuefnið snertir okkur öll. Hér er fyrrum formaður KFH, Dr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, sjúkrahúsprestur Þjóðkirkjunnar á líknardeild Landspítala og formaður hjá Lífinu, samtökum um líknarmeðferð í samtali við Lindu Blöndal í þættinum 21 hjá Hringbraut.

https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/21/liknarmedferd-er-ekki-danaradstod-og-sinfoniuhljomsveit-sudurlands-stofnud/

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Félagsfundi frestað

Vegna tilmæla frá Almannavörnum verður félagsfundi sem hafði verið settur þann 28. september, frestað.

Við hvetjum fólk til að hlúa að sér, sinna sóttvarnar leiðbeiningum og nýta símann eða rafrænar leiðir til að vera í samskiptum.

Biðjum án afláts, setjum fólkið okkar og þjóðina alla í Drottins hendur.

Drottinn blessi þig, og varðveiti þig.
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið!

Kveðja, stjórnin.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Félagsfundur

Kæru félagar Kristilegs félags heilbrigðisstétta, nú viljum við bjóða til félagsfundar mánudaginn 28. september 2020, kl. 17:00 í sal Kristniboðssambandsins við Háaleitisbraut 58-60, 108 Reykjavík.

Séra Ingólfur Hartvigsson mun leiða okkur í bæn og flytja erindi um mikilvægi þess að sinna og mæta andlegri- tilfinningalegri og trúarlegri þörf einstaklinga innan heilbrigðisstofnana.

Séra Pétur Þorsteinsson mætir með gítarinn.

Farið verður eftir Covid-19 tilmælum sóttvarnarteymis og landlæknis.
Boðið verður upp á kaffi.

Verið öll innilega velkomin sem og öll þau sem hafa áhuga á starfi félagsins.
Kveðja stjórnin.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd