Drottinn fer sjálfur fyrir þér, hann verður með þér.
Hann mun hvorki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.
Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast (5. Mós. 31.8).
Það er óvissa um margt þessa dagana. Margt hefur breyst vegna kórónuveirufaraldurs sem nær um allan heim.
Í þessari hugvekju ætla ég að varpa fram myndum úr starfi mínu sem sjúkrahúsprestur við Landspítalann. Þessar myndir eru að vissu leiti steyptar saman úr mörgum minningarbrotum. Engin nöfn en minningar sem því miður allt of margir geta tengt við í dag. Allt sem sjúkrahúsprestur heyrir og sér er bundið trúnaði.
Myndbrotin sem ég ætla að kalla fram eru tvö.
Það fyrra er samtal við manneskju sem er með kórónuveiruna og því í einangrun:
Sjúklingur óskar eftir sálgæslu. Sjúkrahúsprestur bregst við. Byrjar á því að spritta vel hendur, fer í hlífðarföt, setur hettu á höfuðið, grímu fyrir munn og nef, hlífðargleraugu fyrir augun og klæðir sig að lokum í latexhanska. Lítur í spegil. Athugar hvort að allt sé rétt og ekkert gleymst. Lagar grímuna og athugar hvort að hún sé þétt. Játar vanmátt sinn og ótta. Biður um styrk. Drottinn minn og Guð minn. Fer inn í einangrunarherbergið. Sest hjá manneskju sem situr uppi í sjúkrabeði. Ein í herbergi. Bók og farsími á borði. Tekið er í hönd prests. Þögn um stund. Hósti. Þreyta. Þögnin rofin og talað um það sem á hjartanu hvílir. Hugur hjá ástvinum. Sterk von um bata. Prestur hlustar og veitir orðum og þeim huga sem að baki þeim er athygli. Hlífðarfötin eru í fyrstu heftandi. Móða á hlífðargleraugunum. Óþægindin gleymast þó fljótt. Kemur á óvart að þessi heftandi hlífðarföt trufla ekki samtalið. Prestur kveður að lokum, fer fram í milliherbergi og lokar á eftir sér. Fer úr hlífðarfötum og sótthreinsar sig vel og vandlega og fer fram á gang. Undirbýr sig fyrir næsta viðtal.
Svo er það seinna myndbrotið. Manneskja deyr á einni af sjúkradeildum Landspítalans. Ekki af kórónuveirunni. Eðlilegur dauðdagi en veiran er samt allt um kring og hefur mikil áhrif:
Það er miðnætti. Hópur fólks situr inn á sjúkrastofu við dánarbeð látins ástvinar. Sjúkrahúsprestur situr hjá þeim. Öll eru þau með grímu fyrir vitum sér og öll klæðast þau sloppi. Prestur kynnir sig og vottar samúð sína um leið og hann leggur aðra hönd sína við hjartarstað. Engin heilsar með handabandi. Aðstandendur þakka fyrir samúðarkveðjuna en segja ekkert meir. Orð vega þungt þegar ekki sjást svipbrigði. Tárin renna ekki niður kinnar ástvina heldur lita grímurnar dökkbláar. Presturinn heldur sig í tveggja metra fjarlægð. Látlaus kveðjustund við dánarbeð.
Þetta voru tvö stutt minningarbrott á tímum kórónuveirunnar úr starfi sjúkrahúsprests sem starfar meðal annars á coviddeildum Landspítalans við Fossvog. Kórónufaraldurinn er enn í fullum gangi og engin veit hvenær hann tekur enda. Eitt er þó víst að kórónuveiran mun gefa eftir að lokum.
Eins og alltaf þá er það þrennt sem varir í gegnum allar þrengingar, trú, von og kærleikur. Kærleikurinn er þeirra mestur.
Sr. Ingólfur Hartvigsson