Jólafundur KFH 2022

Kæru félagar

Jólafundur KFH verður haldinn mánudaginn 28.nóvember kl 17 í Kristniboðssalnum SÍK á Háleitisbraut 58-60. Fjölbreytt dagskrá, jólakræsingar ofl. Hugleiðing að vanda.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Bestu kveðjur,
Stjórn KFH

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Aðalfundur KFH 2022

Aðalfundur KFH verður haldinn mánudaginn 24.oktober kl 17 í Kristniboðssalnum Háaleitisbraut 58-60. Mikilvægt er að mæta sem flest og taka þátt og byggja upp félagið okkar. Við biðjum saman fyrir og eftir „aðalfundarstörf“. Pétur Þorsteinsson er svo gestrisinn að bjóða okkur heim til sín í súpu eftir fundinn.Hagamel 50, 107 Rekjavík.

Vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Kærar kveðjur
Stjórn KFH

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Heimsfriður

Kæru félagar KFH,

nú eru sorgartímar vegna innrásar Rússa í Úkraínu og ógn hvílir yfir allri heimsbyggðinni. Nú þurfum við að sameinast í bæn og tendra friðarkerti.

Ég legg til að við sameinumst í bæn á kvöldin kl. 18:15-18:30 hvar sem við erum stödd, þar sem við biðjum um himneskan og jarðneskan frið, biðjum um vernd fyrir öll þau sem eru inni í aðstæðunum og huggun fyrir þau sem eiga ástvini í þessum skelfilegu aðstæðum. Leggjum áherslu á vilja Guðs og lausn sem leiðir til stillingar og friðar.

Ég hvet okkur öll til þess að fylgjast með, treysta Guði og tala út von. Megi Drottinn vera með þér og þínu fólki öllu.

Guð umlyki þig á allar hliðar
varðveiti ljósið í þér og láti myrkrið hverfa.
Guð umlyki þig á allar hliðar
varðveiti friðinn í þér og láti óttan hverfa.

Friðar og kærleikskveðja,
Díana Ósk Óskarsdóttir,
formaður KFH.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Gleðilegt nýtt ár.

Kæru félagar, megi Drottinn blessa okkar öll og leiða í hverju skrefi á nýju ári.

Í byrjun árs 2022, fer félagið hægt af stað vegna stöðu smita í samfélaginu. Kórónuveiran heldur áfram að taka sitt rými og áhrif hennar snerta félagsstarfið með þeim hætti að stjórnin heldur sína fundi rafrænt og félagsfundir liggja niðri.

Heilbrigðis-starfsfólk og heilbrigðis-kerfið þarf á bænum okkar að halda og því lítum við svo á að það sé dýrmætt hlutverk félagsins að halda bæninni áfram. Það hefur verið mikið álag á heilbrigðisstarfsfólki og stjórnendum innan heilbrigðiskerfisins, veikindin herja á og mörg þurfa að dvelja í sóttkví á meðan önnur leggja meira á sig vegna manneklu í vinnunni. Það gefur því að skilja að þreyta og streita sé farin að segja til sín. Einnig hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki að halda sig til hlés félagslega, þau hafa mörg verið í „búblum“ og sum í mjög stífum „búblum“. Þannig hafa þau verið einangruð og ekki getað nýtt sér þann félagslega stuðning sem annars margt fólk gengur að sem sjálfsögðum hluta lífsins. Stöndum því stöðug í trúnni og í bæninni kæru félagar.

Aðalfundur félagsins var haldinn á liðnu ári og gekk vel. Þar var gott að koma saman loksins og njóta góðra veitinga og yndislegra félaga. Þá var skipuð ný stjórn þar sem við kvöddum bæði Álfheiði Árnadóttur, Guðný Valgeirsdóttur og Ingigerði Önnu Konráðsdóttur. Einnig lét Theodóra Reynisdóttir af endurskoðun reikninga, Álfheiður Árnadóttir tók við af henni.

Nýja stjórn skipa:
Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður
Herdís Ástráðsdóttir, varaformaður
Eva Kristín Hreinsdóttir, gjaldkeri
Fritz Már Jörgenson Berndsen, ritari
Helga Þórarinsdóttir, meðstjórnandi
Margrét Albertsdóttir, meðstjórnandi

Fyrir hönd stjórnar, Díana Ósk


Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Aðalfundur KFH árið 2021

Aðalfundur Kristilegs félags heilbrigðisstétta verður haldinn mánudaginn 25. október 2021 kl. 17.00-19.00 í sal Kristniboðssambandsins við Háaleitisbraut 58-60, 3. hæð.

Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf:

Ritari fundar valinn
Lesin skýrsla stjórnar.
Lesin fundargerð síðasta Aðalfundar
Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins.
Breytingar á stjórn – Tveir meðstjórnendur gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Kjósa þarf tvo nýja stjórnarmeðlimi. Allir félagar geta gefið kost á sér.

Annað: Umræða um framtíð félagsins á hverju borði fyrir sig og teknir saman helstu punktar sem eru svo settir fram fyrir hópinn.
Fundi slitið.
Að venju verður súpusamfélag á eftir fundinn og að þessu sinni viljum við halda upp á það að við getum loksins komið saman og bjóðum því líka upp á snittur og góða köku. 

Vonandi sjáum við sem flest ykkar kæru félagar og við bjóðum einnig velkomin öll þau sem hafa áhuga á félaginu. 
Einnig vonumst við til þess að þið sem ekki komist gefið ykkur stund til þess að biðja fyrir okkur sem mætum og fyrir framgangi félagsins. Megi Guðs vilji ná fram að ganga.

Megi okkar eilífi, lifandi Guð leiða okkur öll og blessa,

Kær kveðja,

Fyrir hönd stjórnar,
sr. Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Bænastund

Kæru félagar,
við viljum vekja athygli á að samstarfs-verkefið „Bænadiskurinn“ milli Kristilegs félags heilbrigðisstétta og Biblíufélagsins hefur borið góðan ávöxt.
Nú er hægt að fara inn á biblian.is, færa sig niður eftir forsíðunni og finna þar Orð kvöldsins sem er í raun „bænadiskurinn“ settur fram sem app til þess að fylgja nýjustu tækni.
Hér er linkur til að fara beint inn á Orð kvöldsins á spotify: https://open.spotify.com/show/4nyOc6BWfkuPzgvXzQ77jJ?go=1&utm_source=embed_v3&t=24084&nd=1

Með góðri kveðju,stjórnin

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Gleðilega páska

Hann er upprisinn!

Kristur lifir!

Nú er sigurhátíð, stærsta hátíð okkar sem erum kristin. Föstudagurinn langi, dánarstund Jesú liðinn, hann búinn að sigra dauðann og er upprisinn!

Það er eitt að sjá eitthvað, annað er að taka eftir því sem við sjáum og enn annað er að meðtaka það og tengja við það.

Við getum séð borð án þess að gefa því gaum, á einum tíma gætum við tekið betur eftir og séð á því óhreinan disk og hnífapör á öðrum tíma gætum við tekið betur eftir og séð hvernig hnífapörin hafa verið sett með ákveðnum hætti á diskinn og við meðtökum hvað það þýðir.

Jóhannes kom að gröf Jesú og sá línblæjurnar einar liggjandi, Pétur tók eftir því að línblæjurnar láu þarna en sveitadúkurinn sem hafði verið vafinn um höfuð Jesú lá ekki með þeim heldur var samanvafinn á öðrum stað.

Þau sem hafa rýnt í þennan texta hafa spurt hvort það hafi haft ákveðna merkingu að vefja höfuðklútinn svona saman, líkt og þegar við gefum til kynna að við séum hætt að borða með því að leggja hnífapörin frá okkur með ákveðnum hætti á diskinn. Mér finnst það áhugaverð spurning því það er ekki fyrr en  Jóhannes kemur inn í gröfina að hann sér samanvafinn höfuðklútinn og meðtekur tíðindin.

Þarna meðtók Jóhannes fagnaðarerindið og sá að áætlun Guðs hafði náð fram að ganga.

Á einu augabragði fóru lærisveinarnir frá mikilli depurð, efa, ótta og örvæntingu yfir í von, sigur og gleði. Jesús hafði verið deyddur á Krossi og var nú upprisinn!

Vörpum áhyggjum okkar til Drottins meðtökum bænasvarið og treystum því að áætlun Guðs mun ná fram að ganga okkur til góðs og honum til dýrðar. Njótum þess að fagna saman því sem felst í upprisunni, að Jesús sigraði dauðann og gaf okkur tækifæri til eilífs lífs með sér.

Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður KFH.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Gleðilegt nýtt ár!

Kæri félagi KFH nú er árið á enda.

Þetta hefur verið einstakt ár þar sem við höfum ekki náð að koma saman eins og áður. Félagsfundir og súpusamfélagið hefur verið í hvíld og stjórnarfundir hafa verið haldnir á netinu. Aðalfundur félagsins var settur á bið þar til við getum komið saman og látum við vita um leið og sóttvarnarteymið gefur grænt ljós á samkomur.

Nú sem fyrr hefur verið mikil þörf á bænastundum. Enda hefur bænalíf okkar ekki riðlast eða verið stoppað vegna kórónuveirunnar. Við höfum lagt kapp á að minna á sameiginlegar bænastundir þar sem við höfum beðið sérstaklega fyrir heilbrigðiskerfinu, öllu því fólki sem þarf á þjónustu þess að halda og öllu heilbrigðisstarfsfólki. Við höfum einnig beðið fyrir félaginu okkar og þeim farvegi sem Guð hefur fyrir það.

Á árinu náðist að klára verkefnið sem við unnum að með Biblíufélaginu, að gerð bænadisksins (minnislykilsins). Við erum þakklát fyrir það ferli og þann ávöxt og hlökkum til að sjá bænastundirnar komast í loftið.

Við höldum áfram að biðja, biðjum án afláts og treystum okkar himneska föður fyrir landinu okkar og öllu okkar fólki og þökkum fyrir allar góðar gjafir og allt það góða sem hefur áunnist.

Um leið og við kveðjum árið þá þökkum við fyrir það sem liðið er og tökum fagnandi á móti nýju ári og nýjum áskorunum og óskum ykkur farsældar á árinu 2021.

Legg allt þitt í hendur Guðs sem mun vel fyrir sjá!

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
Jóh. 14.27
Hann sagði: Ég elska þig, Drottinn, styrkur minn. Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín.
Sálmarnir 18.2-3

F.h. stjórnar,
Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Viðtalið: Birtu brugðið yfir skugga

Öllum finnst sjálfsagt og eðlilegt að vera með sínum nánustu um jólahátíðina. Jólin enda ekki aðeins hátíð ljóss og friðar, trúar og kærleika, heldur og hátíð fjölskyldunnar. Sá tími þegar fólk vill vera umvafið sínum nánustu.

En sum hver þurfa að vera fjarri sínum nánustu á þessari hátíð. Og jafnvel enn fjær en venjulega nú um stundir vegna kórónuveirunnar.

Þetta á meðal annars við um þau sem eru á sjúkrahúsum.

Dr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir er sjúkrahúsprestur þjóðkirkjunnar og hefur lengi starfað á þeim vettvangi. Hún segir helgihaldið á Landspítalanum verða með öðrum hætti á þessum jólum en hinum fyrri.„Þetta er í fyrsta skipti í rúma tvo áratugi þar sem ég verð ekki að þjóna við helgihald á líknardeild í Kópavogi á aðfangadag,“ segir dr. Guðlaug Helga. „Í stað þess verður jólaguðsþjónusta sýnd í sjónvarpi Landspítalans á aðfangadag, jóladag og annan jóladag. Einnig verður hægt að nálgast upptöku á heimasíðu og Facebook-síðu spítalans.“

Það þarf varla að taka það fram að aðventan hefur einnig verið með öðrum blæ á spítalanum en áður og prestar og djákni hafa þurft að aðlaga sálgæsluleiðir sínar að þessum aðstæðum.Velviljað listafólk
„Við eigum svo margt tónlistarfólk sem hefur komið á spítalann á aðventu og jólum og glatt sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk með tónlist sinni,“ segir dr. Guðlaug Helga. Sú dýrmæta og þakkarverða þjónusta var fjarri að þessu sinni vegna sóttvarnaraðgerða. En hún segir að þeim skilaboðum hafi verið komið til þeirra að þau mættu svo sannarlega leita til tónlistarfólksins á næstu aðventu og jólum. „Við stefnum að sjálfsögðu að því,“ segir dr. Guðlaug Helga full tilhlökkunar enda eru öll búin að fá nóg af kórónuveirutrufluninni þó þolinmóð séu.

„Við sem störfum á vettvangi sálgæslu presta og djákna finnum glöggt hversu aðventan og jólin eiga sterkan sess í hugum fólks,“ segir dr. Guðlaug Helga. „Það er mikið leitað til okkar á þessum tíma og jafnvel meira en aðra daga ársins.“

Er einhver skýring á því?

„Vafalaust er hún sú að jólin og aðventan vekja með sér ákveðnar tilfinningar og hughrif,“ svarar dr. Guðlaug Helga. „Þetta er tími þar sem tengsl og samskipti við þau sem standa fólki næst eru svo dýrmæt og það er erfitt að vera að glíma við veikindi og áföll á þessum tíma.“

Hún segir að fólk leiði oft hugann til fyrri jóla sem það hefur upplifað og deili minningum sem geta bæði verið góðar og innihaldsríkar en einnig erfiðar og sársaukafullar. „Við sjúkrahúsprestar- og djákni á spítalanum skrifuðum einmitt stutta grein sem birtist á visir.is þar sem við fjölluðum um jólin á spítala,“ segir dr. Guðlaug Helga. 

En í hverju felst sálgæsla sjúkrahúspresta- og djákna?

„Það er fyrst og fremst samfylgd með fólki á erfiðum tímum í lífi þess,“ svarar dr. Guðlaug Helga. „Samfylgdin byggir á nærveru sem einkennist af virðingu, trúnaði og umhyggju fyrir hverri manneskju og aðstæðum hennar.“

Hún segir að samtölin geti verið margs konar og snúist um mikla tilvistarkreppu fólks og markmiðsleit í lífinu. Stundum sé þó bara setið í þögninni og um leið fái djúpar og sárar tilfinningar ákveðinn farveg. Þjónustan sé alltaf veitt á forsendum þeirra sem hana þiggja. „Í því felst samfylgdin meðal annars,“ segir dr. Guðlaug Helga.

Þá segir hún að þau sinni fjölskyldum í aðdraganda andláts eða við andlát og veiti sálgæslu með ýmsum hætti og hafi um hönd sérstaka kveðjustund við dánarbeð. „Okkar faglega þekking er á sviði guðfræði og menntunar í áfalla- og sorgarvinnu, handleiðslufræðum og fjölskyldumeðferð,“ segir dr. Guðlaug Helga.

Flest breyttist með veirunni

Sjúkrahúsprestar- og djákni urðu eins og annað starfsfólk að beygja sig fyrir breyttum aðstæðum á sjúkrahúsinu. Það hafði töluverð áhrif á þjónustuna og brá öðrum svip yfir hana enda þótt hún breyttist ekki í eðli sínu.

„Við erum klædd í spítalaföt frá toppi til táar,“ segir dr. Guðlaug Helga, „setjum upp maska eins og annað starfsfólk og jafnvel hanska.“ Þau þeirra sem hafi sinnt kóvid-sjúklingum hafi síðan þurft að fara í sérstakan klæðnað.Ekki ókunnug sjúkrahúsum
„Jól á spítala hafa verið stór hluti af lífi mínu,“ segir dr. Guðlaug Helga. „Á bernsku- og unglingsárum ólst ég upp við það að jólin hjá mér og minni fjölskyldu hófust á spítala. Ég man eftir mér frá blautu barnsbeini þar sem ég fylgdi föður mínum í jólahelgihald en hann starfaði sem læknir lengstum á Grensásdeild en einnig í Svíþjóð. Það eru dýrmætar minningar og ég þrátt fyrir í fyrstu ungan aldur fann vel að jólin koma einnig til þeirra sem dveljast á sjúkrastofnunum. Síðustu rúm 20 ár hef ég síðan notið þeirra forréttinda að fá að byrja jólin á líknardeildinni. Í ár mun ég fara á deildina og heilsa upp á sjúklingana sem þar dvelja um jólin og aðstandendur þeirra.“
En hvað með eftirfylgd með sjúklingum og aðstandendum?

„Hún hefur að miklu leyti farið fram í gegnum símaviðtöl,“ svarar dr. Guðlaug Helga.

Hún segir að þrátt fyrir allar sóttvarnaraðgerðir og þær skorður sem þær hafi sett þeim í sambandi við að hitta fólk með sama hætti og áður þá geti þau sinnt samfylgdinni og staðið við hlið annarrar manneskju á viðkvæmum og erfiðum tíma í lífi hennar.

Það er gjarnan sagt svo að jólahátíðin komi hvernig svo sem stendur á í lífi fólks. Hátíðin gengur í garð þegar klukkur hringja inn jólin á aðfangadagskvöld. Sá klukknahljómur berst um allt. Líka inn á spítalana og þá eru jólin komin. Hvernig svo sem stendur þar á í lífi fólks: sjúklinga sem starfsfólks.

„Boðskapur jólanna og það sem hann stendur fyrir kemur til fólks hvort sem það er statt við sjúkrarúm eða dánarbeð,“ segir dr. Guðlaug Helga, „já og inn í allar aðstæður og þá ekki bara á jólum heldur einnig á öðrum tímum ársins.“
Boðskapurinn sem er einstakur:

„Ljósið, friðurinn og samkenndin eru allt gildi sem tala sterkt inn í mannlegar aðstæður og ekki síst þegar verið er að takast á við erfið veikindi og áföll,“ segir dr. Guðlaug Helga. „En það erfiðasta er líklega það að geta ekki verið í sínum eigin aðstæðum, á sínu eigin heimili.“

Glíma við veikindi og öryggisleysið taki á alla sem og að horfast í augu við takmarkaðan tíma með fjölskyldu og nánum vinum.

En þrátt fyrir allt er spítalinn eins og hver annar vinnustaður með starfsfólki úr ólíkum áttum. En hann er líka sérstakur með sínum hætti sem viðkomustaður fólks á leið aftur út í lífið eða fólks sem á ekki afturkvæmt. Þetta tvennt setur mark sitt á staðinn og gerir hann öðruvísi en aðra vinnustaði. Og starfsfólkið.
„Það er einstakt að vinna á jólum á spítalanum þegar hann er í hátíðarbúningi eins og hægt er ef svo má segja,“ segir dr. Guðlaug Helga. Þá sé góður hátíðarmatur borinn fram og starfsfólk spítalans leggi sig í framkróka með að skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft.

Dr. Guðlaug Helga segir að stundirnar sem hún hafi átt með sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki bæði á aðventu og á aðfangadag í kapellu líknardeildar séu einstakar. Þær skipti fólk gífurlega miklu máli. „Þau sem geta taka undir jólasálmana okkar og sérstaklega Heims um ból,“  segir hún og bætir við að þá verði helgi jólanna með einhverjum hætti svo áþreifanleg og öll viðstödd sameinist um það sem skipti máli.

hsh
Viðtalið er tekið af vef kirkjunnar: kirkjan.is

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Gleðileg jólKæri félagi,við sendum okkar bestu óskir um Gleðileg jól til þín og þinna.
Megi Drottinn blessa ykkur með friði, kærleika og sátt yfir jólin.

Vers vikunnar:
„Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ (Lúk 2.10b.11)

Bæn dagsins:
Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, og upphaf gleðinnar. Með fæðingu Jesúbarnsins sendir þú bjartan geisla inn í myrkur jarðar. Gef að þetta ljós lýsi einnig hjá okkur. Lát það geisla í öllu sem við gerum, svo að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu. Amen.  

Jólakveðja, f.h. stjórnar,
Díana Ósk ÓskarsdóttirBirt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd