Gleðilega páska

Hann er upprisinn!

Kristur lifir!

Nú er sigurhátíð, stærsta hátíð okkar sem erum kristin. Föstudagurinn langi, dánarstund Jesú liðinn, hann búinn að sigra dauðann og er upprisinn!

Það er eitt að sjá eitthvað, annað er að taka eftir því sem við sjáum og enn annað er að meðtaka það og tengja við það.

Við getum séð borð án þess að gefa því gaum, á einum tíma gætum við tekið betur eftir og séð á því óhreinan disk og hnífapör á öðrum tíma gætum við tekið betur eftir og séð hvernig hnífapörin hafa verið sett með ákveðnum hætti á diskinn og við meðtökum hvað það þýðir.

Jóhannes kom að gröf Jesú og sá línblæjurnar einar liggjandi, Pétur tók eftir því að línblæjurnar láu þarna en sveitadúkurinn sem hafði verið vafinn um höfuð Jesú lá ekki með þeim heldur var samanvafinn á öðrum stað.

Þau sem hafa rýnt í þennan texta hafa spurt hvort það hafi haft ákveðna merkingu að vefja höfuðklútinn svona saman, líkt og þegar við gefum til kynna að við séum hætt að borða með því að leggja hnífapörin frá okkur með ákveðnum hætti á diskinn. Mér finnst það áhugaverð spurning því það er ekki fyrr en  Jóhannes kemur inn í gröfina að hann sér samanvafinn höfuðklútinn og meðtekur tíðindin.

Þarna meðtók Jóhannes fagnaðarerindið og sá að áætlun Guðs hafði náð fram að ganga.

Á einu augabragði fóru lærisveinarnir frá mikilli depurð, efa, ótta og örvæntingu yfir í von, sigur og gleði. Jesús hafði verið deyddur á Krossi og var nú upprisinn!

Vörpum áhyggjum okkar til Drottins meðtökum bænasvarið og treystum því að áætlun Guðs mun ná fram að ganga okkur til góðs og honum til dýrðar. Njótum þess að fagna saman því sem felst í upprisunni, að Jesús sigraði dauðann og gaf okkur tækifæri til eilífs lífs með sér.

Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður KFH.

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.