Gleðilega páska

Það er góður dagur í dag. Sólin skín, vetur undirbýr sig að kveðja og allt í kringum okkur má sjá ummerki þess að lífið fari að kvikna að nýju. Nú er sigurhátíð – stærsta hátíð okkar sem erum kristin. Við fögnum lífinu. Föstudagurinn langi er liðinn, Drottinn er búinn að sigra dauðann – Jesús er upprisinn.

Það tekur okkur mörg góða stund að meðtaka skilaboðin og átta okkur á þessum mikla sigri – fréttunum um hið eilífa líf.
Gefum okkur stund og meðtökum það sem Drottinn hefur fyrir okkur.
Þökkum og fögnum.

Sr. Díana Ósk Óskarsdóttir

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Kæru félagar!

Nú eru við öll að takast á við tíma sem við þekkjum ekki og við erum tilneydd til þess að fara útfyrir þægindarammann okkar. Veiran sjálf er ákveðin ógn gagnvart þeim sem fást við undirliggjandi sjúkdóma, þau sem eru komin á aldur og þau sem eru að fást við kvíða.

Margir Íslendingar eru í sóttkví, einhver í einangrun, sum eru veik og framundan er meira álag á heilbrigðisstarfsfólk. Það er eðlilegt að glíma við óöryggi miðað við þá óvissu sem nú ríkir.

Á sama tíma og við hvetjum fólk til þess að sýna varfærni, fara að fyrirmælum um hreinlæti, samkomubann og fjarlægðarbil milli einstaklinga viljum við hvetja ykkur til að standa vörð í bæninni. Leggjumst öll á eitt, biðjum án afláts!
Biðjum fyrir þeim þjóðum sem eru að fást við erfiðar aðstæður vegna veirunnar, biðjum fyrir almannavarnarkerfinu okkar, biðjum fyrir heilbrigðiskerfinu, öllu heilbrigðisstarfsfólki, biðjum fyrir þeim sem eru sjúkir, aðstandendum þeirra, biðjum fyrir þeim sem eru í einangrun, þeim sem eru í sóttkví og þeim sem eru óttaslegin eða kvíðin. Biðjum fyrir hvert öðru.

Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
Filippíbréfið 4.

Þau sem leita Drottins, fara einskins góðs á mis.
Sálm. 34

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Félagsfundur

Kæru félagar, þann 17. Febrúar 2020 kl. 17:30 ætlum við að koma saman í sal Kristniboðssambandsins.
Sr. Fritz Már Jörgensson mun flytja erindi um kyrrðarbæn og leiða okkur í bæn.
Sr. Pétur Þorsteinsson mun mæta með gítarinn.
Við munum enda stundina með súpusamfélagi.
Verið öll innilega velkomin.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Jóla og áramótakveðja

Stjórn Kristilegs félags heilbrigðisstétta sendir öllum sínum félagsmönnum og konum hlýja kveðju um hátíðarnar. Með innilegri þökk fyrir árið sem er að líða.

GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR

Megi okkar eilífi Guð umfaðma hvert og eitt ykkar, blessa ykkur og leiða.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Myndir frá aðalfundi KFH 2019

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Aðalfundur 2019

Aðalfundur félagsins var haldinn mánudaginn 21. október 2019 að Háaleitisbraut 58-60.
Fundarstjóri var Álfheiður Árnadóttir og fundarritari Fritz Már Jörgensson.
Díana Ósk setti fundinn með bæn og lestri úr Filippíbréfinu.

Fritz Már las fundargerð síðasta aðalfundar sem var samþykkt.

Díana Ósk las skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár og þar kom fram að stjórnin kom saman fjórum sinnum á árinu og haldnir voru tveir félagsfundir.
Reikningar félagsins lagðir fram og þeir samþykktir.
Umræður voru um framtíð félagsins, mikilvægi bænabæklinga, kynningu á félaginu, sunnudagstexta sem settir eru inn á fésbókarsíðu félagsins og margt annað gagnlegt.
Úr stjórn gekk Sylvía Magnúsdóttir. Álfheiður Árnadóttir, Guðný Valgeirsdóttir og Ingigerður Anna Konráðsdóttir kláruðu tímabil sitt og gáfu sig fram til áframhaldandi setu.

Í nýrri stjórn eru:

Álfheiður Árnadóttir
Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður
Eva Kristín Hreinsdóttir, varaformaður
Fritz Már Jörgenson Berndsen, ritari  
Guðný Valgeirsdóttir
Ingigerður Anna Konráðsdóttir, gjaldkeri
Margrét Albertsdóttir

Endurskoðendur verða áfram Theodóra Reynisdóttir og Bernharður Guðmundsson

Eftir fundinn var súpusamfélag og samvera fundarmanna heima hjá Pétri Þorsteinssyni sem færði félaginu höfðinglega gjöf.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Aðalfundarboð 21. október 2019

Aðalfundur Kristilegs félags heilbrigðisstétta verður haldinn mánudaginn 21. október 2019 kl. 17.00-19.00 í sal Kristniboðssambandsins Háaleitisbraut 58-60, 3. hæð.

Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf.

Verið öll innilega velkomin.

Fyrir hönd stjórnar KFH, sr. Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Bænastund

Mánudaginn 13. mai kl. 17:00-17:30 er boðað til bænastundar í sal Kristniboðssambandsins.
Stjórnin ætlar að koma saman og biðja fyrir þeim sem eru að fást við veikindi, fyrir aðstandendum þeirra, heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum landsins.
Allt félagsfólk er innilega velkomið að mæta og taka þátt í að knýja á og dvelja í nærveru Guðs

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Aðalfundur 2018

Aðalfundur félagsins var haldinn mánudaginn 29. október 2018 að Háaleitisbraut 58-60.
Fundarstjóri var Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir og fundarritari Álfheiður Árnadóttir.

Guðlaug Helga las skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár og þar kom fram að engir almennir félagsfundir voru haldnir á árinu.
40 ára afmælishátíð var haldin 20. mars í safnaðarheimili Háteigskirkju sem tókst mjög vel og var vel sótt.
Fundargerð síðasta aðalfundar lesin og samþykkt.
Reikningar félagsins lagðir fram og þeir samþykktir.
Fráfarandi formaður Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir þakkaði fyrir samstarfið gegnum árin.
Ræddi hún framtíð félagsins og fagnaði nýjum félögum í stjórn og óskaði þeim velfarnaðar í starfi.
Fráfarandi stjórnarmönnum voru færðar þakkir og gjafir fyrir frábært og óeigingjarnt starf í þágu félagsins.

Úr stjórn gengu Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir fomaður,  Anna Ólafía Sigurðardóttir varaformaður og Guðný Jónsdóttir.

Í nýrri stjórn eru:

Álfheiður Árnadóttir
Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður
Eva Kristín Hreinsdóttir, varaformaður
Fritz Már Jörgenson Berndsen, ritari  
Guðný Valgeirsdóttir
Ingigerður Anna Konráðsdóttir, gjaldkeri
Silvía Magnúsdóttir

Endurskoðendur verða áfram Theodóra Reynisdóttir og Bernharður Guðmundsson

Eftir fundinn var súpusamfélag og samvera fundarmanna.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Aðalfundarboð – 29. október 2018

Aðalfundur Kristilegs félags heilbrigðisstétta verður haldinn mánudaginn 29. október kl. 17.00-19.00 í sal Kristniboðssambandsins Háaleitisbraut 58-60, 3. hæð.

Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf.

Verið öll innilega velkomin.

Fyrir hönd stjórnar KFH, sr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, formaður.

Birt í Aðalfundur, Félagsfundir | Færðu inn athugasemd