Kæru félagar, megi Drottinn blessa okkar öll og leiða í hverju skrefi á nýju ári.
Í byrjun árs 2022, fer félagið hægt af stað vegna stöðu smita í samfélaginu. Kórónuveiran heldur áfram að taka sitt rými og áhrif hennar snerta félagsstarfið með þeim hætti að stjórnin heldur sína fundi rafrænt og félagsfundir liggja niðri.
Heilbrigðis-starfsfólk og heilbrigðis-kerfið þarf á bænum okkar að halda og því lítum við svo á að það sé dýrmætt hlutverk félagsins að halda bæninni áfram. Það hefur verið mikið álag á heilbrigðisstarfsfólki og stjórnendum innan heilbrigðiskerfisins, veikindin herja á og mörg þurfa að dvelja í sóttkví á meðan önnur leggja meira á sig vegna manneklu í vinnunni. Það gefur því að skilja að þreyta og streita sé farin að segja til sín. Einnig hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki að halda sig til hlés félagslega, þau hafa mörg verið í „búblum“ og sum í mjög stífum „búblum“. Þannig hafa þau verið einangruð og ekki getað nýtt sér þann félagslega stuðning sem annars margt fólk gengur að sem sjálfsögðum hluta lífsins. Stöndum því stöðug í trúnni og í bæninni kæru félagar.
Aðalfundur félagsins var haldinn á liðnu ári og gekk vel. Þar var gott að koma saman loksins og njóta góðra veitinga og yndislegra félaga. Þá var skipuð ný stjórn þar sem við kvöddum bæði Álfheiði Árnadóttur, Guðný Valgeirsdóttur og Ingigerði Önnu Konráðsdóttur. Einnig lét Theodóra Reynisdóttir af endurskoðun reikninga, Álfheiður Árnadóttir tók við af henni.
Nýja stjórn skipa:
Díana Ósk Óskarsdóttir, formaður
Herdís Ástráðsdóttir, varaformaður
Eva Kristín Hreinsdóttir, gjaldkeri
Fritz Már Jörgenson Berndsen, ritari
Helga Þórarinsdóttir, meðstjórnandi
Margrét Albertsdóttir, meðstjórnandi
Fyrir hönd stjórnar, Díana Ósk