Kæru félagar!
Nú eru við öll að takast á við tíma sem við þekkjum ekki og við erum tilneydd til þess að fara útfyrir þægindarammann okkar. Veiran sjálf er ákveðin ógn gagnvart þeim sem fást við undirliggjandi sjúkdóma, þau sem eru komin á aldur og þau sem eru að fást við kvíða.
Margir Íslendingar eru í sóttkví, einhver í einangrun, sum eru veik og framundan er meira álag á heilbrigðisstarfsfólk. Það er eðlilegt að glíma við óöryggi miðað við þá óvissu sem nú ríkir.
Á sama tíma og við hvetjum fólk til þess að sýna varfærni, fara að fyrirmælum um hreinlæti, samkomubann og fjarlægðarbil milli einstaklinga viljum við hvetja ykkur til að standa vörð í bæninni. Leggjumst öll á eitt, biðjum án afláts!
Biðjum fyrir þeim þjóðum sem eru að fást við erfiðar aðstæður vegna veirunnar, biðjum fyrir almannavarnarkerfinu okkar, biðjum fyrir heilbrigðiskerfinu, öllu heilbrigðisstarfsfólki, biðjum fyrir þeim sem eru sjúkir, aðstandendum þeirra, biðjum fyrir þeim sem eru í einangrun, þeim sem eru í sóttkví og þeim sem eru óttaslegin eða kvíðin. Biðjum fyrir hvert öðru.
Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
Filippíbréfið 4.
Þau sem leita Drottins, fara einskins góðs á mis.
Sálm. 34