Sigrún Gunnarsdóttir skrifar um Biblíuna á 200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags, birt í Frétablaðinu 1. apríl 2015.
Biblían er ekki einungis trúarrit, Biblían er líka grundvallarrit um gildismat og siðfræði. Textar Biblíunnar, ekki síst frásögur Nýja testamentisins, hafa mótað gildismat okkar í þúsund ár. Dæmisögur Jesú eru í senn einföld frásögn og djúp viska um kærleika og virðingu. Sagan af miskunnsama Samverjanum grípur hvern sem er og sannfærir okkur um hvað felst í því að eiga náunga og það sé gott að hjálpa náunganum jafnvel þó við þekkjum hann ekki og hann tilheyri ekki sama hópi og við. Umburðarlyndi og náungakærleikur eru grunnstef Nýja testamentisins sem eru hluti af gildismati og siðgæðisvitund okkar. Allar bækur Biblíunnar eru stórmerkilegar og ég á mér þann draum að þekkja þær allar. Uppáhaldsritin eru nú Nýja testamentið, Sálmarnir og Orðskviðirnir sem eru uppspretta visku og trúarsannfæringar og fjalla líka um tilgang lífsins og tilgang samskipta.
Kærleiksboðorðið snýst um kærleika til Guðs, til sjálfs okkar og til náungans
Sögurnar og orð Jesú taka sér bólfestu í huga og hjarta og verða ekki frá okkur tekin hvað sem á dynur. Í hvert sinn sem við heyrum þessi orð verður skilningurinn dýpri og við sjáum orðin í nýju samhengi. Dæmi um djúpa merkingu orða Jesú er Gullna reglan: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matt 7.12) og Kærleiksboðorðið: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22.37-39).
Kærleiksboðorðið hefur haft veruleg áhrif á mig allt frá því að ég var barn en fyrir um 20 árum opnaðist alveg ný vídd í merkingu seinni hluta boðorðsins: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þetta gerðist þegar ég var við nám í Danmörku í námskeiði um heimspekinginn og guðfræðinginn Sören Kierkegaard. Einu sinni í lest á leið í skólann las ég texta Kierkegaard um þetta boðorð og hann spyr lesandann hver sé forsenda boðorðsins (forudsætningen). Allt í einu var eins og ljós kviknaði.
Ég hafði aldrei hugsað út í þetta. Hafði þótt þetta fremur einfalt og snúast um það að vera annt um aðra. En forsendan felst sem sagt í orðunum „eins og sjálfan þig“ og Kierkegaard útskýrir að okkur getur ekki verið annt um aðra eins og sjálf okkur nema að við byrjum einmitt á sjálfum okkur. Byrjunin er forsendan og er umhyggja fyrir okkur sjálfum. Þessi túlkun fannst mér allt í einu svo sjálfsögð og einföld en hafði aldrei heyrt þetta sjónarhorn áður eða hugsað út í þessa hlið boðorðsins.
Kærleiksboðorðið snýst um kærleika til Guðs, til sjálfs okkar og til náungans. Túlkun Kierkegaard rímar við áherslur samtímans um jafnvægi sjálfsræktar og sömu ábyrgðar gagnvart náunganum og samfélaginu. Túlkun Kierkegaard er innsýn í djúpa visku Biblíunnar sem er sígild og er fótfesta trúar okkar en ekki síður dýrmæt fótfesta fyrir gildismat og siðfræði.
Grein sem birtist í Frétablaðinu 1. apríl 2015: http://www.visir.is/truarrit-og-grundvallarrit-um-gildismat-og-sidfraedi/article/2015704019859