Grein Dr. Guðlaugar Helgu Ásgeirsdóttur um Biblíuna á visir.is

Birtum hér afrit af grein Dr. Guðlaugar Helgu Ásgeirsdóttur um Biblíuna  á visir.is sem birtist þar 4. febrúar 2015

B I B L Í A er bókin bókanna. Á orði Drottins er allt mitt traust. B I B L Í A. Biblía. Þessi litli söngur hefur verið sunginn í kristilegu barnastarfi um áratuga skeið. Í einfaldleika sínum undirstrikar hann mikilvægi Biblíunnar sem trúarrit kristni en fyrsta heildarþýðing á ritum Biblíunnar, Guðbrandsbiblía kom út á íslensku árið 1584. Hið íslenska biblíufélag sem hefur það að markmiði að vinna að útgáfu og útbreiðslu Biblíunnar hefur verið starfandi í 200 ár en það var stofnað 10. júlí árið 1815. Ýmsir viðburðir í tilefni afmælisins hafa verið skipulagðir á vegum biblíufélagsins til að minnast þessara merku tímamóta.

Það var á fermingarári mínu sem ég eignaðist mínu fyrstu Biblíu. Ég man enn tilfinninguna þegar ég opnaði fermingargjöfina frá föðurömmu minni og sá rauða fallega bók með gylltu sniði. Biblían var mér þó ekki ókunn. Á yngri árum hafði ég sjálf lesið Barnabiblíur og heillast af hinum ýmsu frásögnum þótt skilningur á þeim hafi vafalítið verið takmarkaður. Ég hafði líka flett Biblíu móður minnar með mikilli lotningu; svarta bókin sem lá á náttborði hennar og ég fann hve skipti hana miklu máli. Ég gleymi seint þeirri tilfinningu þegar ég handlék mína eigin Biblíu í fyrsta sinn. Fremst hafði verið skrautskrifaður texti sem hafði að geyma kveðju frá ömmu minni og það vers úr Biblíunni sem hún hafði einna mestar mætur á úr Filippíbréfinu en þar segir: Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú (Fil 4.4-7). Síðan hafa liðið mörg ár og Biblíuna nota ég daglega – bæði í mínu einkalífi og þjónustu sem prestur á sjúkrahúsi. Iðulega er ég beðin um að hafa kveðjustundir við dánarbeð þar sem huggunarorð úr Biblíunni fá að hljóma og farið er með bænavers sem margir hafa lært í bernsku.

Kveðjan frá ömmu minni hefur fylgt mér og mér þykir ótrúlega vænt um hana. Ég hefði seint gert mér í hugarlund hve sú speki sem Biblían hefur að geyma hefur mótað mig og mín lífsgildi og þá sérstaklega orð og athafnir Jesú Krists.

Sjá greinina á: http://www.visir.is/bok-bokanna/article/2015702049993+

Biblia isl

Þessi færsla var birt undir Blaðagrein. Bókamerkja beinan tengil.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.